top of page

Listmeðferð

Image by Karen Maes
Image by Anna Kolosyuk

Um

Í listmeðferð er skjólstæðingnum skapað rými til persónulegrar tjáningar á tilfinningum og hugarheimi með fjölbreytilegum myndlistarefnivið í öruggu umhverfi undir umsjón listmeðferðarfræðings. Í vinnuferlinu er ekkert rétt eða rangt og því engin þörf á færni eða reynslu í myndsköpun. 

 

Tilgangur meðferðarinnar er að vinna með tilfinningar og líðan í gegnum ýmiss konar efnivið, form, sköpun og samtal – og alls ekki að skapa fullkomin listaverk. Það skiptir máli hvaða merkingu hver og einn leggur í myndverk sitt og listmeðferðarfræðingurinn hjálpar skjólstæðingnum að skoða hug sinn þar að lútandi. Þessar aðstæður geta hjálpað við að vinna á táknrænan hátt úr erfiðri lífsreynslu, setja orð á tilfinningar og hugsanir og einnig örvað sköpunargáfu, sjálfstraust og virðingu fyrir eigin hæfileikum og getu.  

 

Skjólstæðingar listmeðferðafræðinga eru á öllum aldri; einstaklingar sem glíma m.a. við geðræn vandamál, hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum eða eru að glíma við sjúkdóma eða fatlanir. Bæði er unnið með einstaklingum og hópum.

 

Munurinn á listmeðferð og myndlistarkennslu

 

Starf myndlistarkennarans miðast við það sem lagt er fyrir í námskrá. Hann kennir hina formlægu/hlutlægu og fagurfræðilegu uppbyggingu myndmálsins. Einnig kennir fræði hann um myndlistarefnin, tækniaðferðir, notkun áhalda og efna, strauma og stefnur í listasögu, listgagnrýni og undirbýr nemendur sem listnjótendur.

 

Listmeðferðarfræðingurinn leggur áherslu á vinnuferlið sjálft og samband sitt við skjólstæðinginn. Hann veitir tilfinningalegum viðbrögðum, hegðun og vinnulagi athygli. Einnig rýnir hann í hvernig skjólstæðingurinn upplifir verk sitt, innihald verksins og hvað skjólstæðingurinn hefur um myndverkið að segja. Í meðferðarsambandinu skapast mikilvægt öryggi og traust milli skjólstæðings og listmeðferðarfræðings. Í listmeðferð er áherslan á hvernig skjólstæðingurinn upplifir sjálfan sig, þarfir sínar og eigin vanda. Myndsköpunarferlið og sambandið við listmeðferðarfræðinginn getur hjálpað skjólstæðingnum að tjá ýmsar tilfinningar og hugsanir sem hann kemur ekki í orð og þannig öðlast nýjan skilning á sjálfum sér.

 

Listmeðferðarfræðingurinn skoðar persónuleg einkenni og þroskaþætti sem birtast í listaverkinu og hjálpar viðkomandi að vinna með þær tilfinningar sem koma upp á yfirborðið.

 

Munurinn á listmeðferð og iðju-/þroskaþjálfun

 

Fleiri stéttir nota myndlist í vinnu með einstaklingum og má þar nefna þroska- og iðjuþjálfa en hjá þeim er áherslan á þjálfunarþáttinn, þ.e. að nota þær leiðir sem myndlistin býður upp á sem þjálfunartæki hvað varðar m.a. fínhreyfingar, skynjun og sjálfseflingu. Myndlistin getur einnig verið notuð sem leið til að efla félagsfærni og tómstundaiðkun.

 

Leiðbeiningar um verk unnin í listmeðferð

Þau verk sem unnin eru í listmeðferð eru meðhöndluð sem meðferðargögn og eru ávallt geymd á öruggum stað á meðan meðferð stendur yfir. Það er skjólstæðingurinn sjálfur sem ákveður hvernig farið er með hans persónulegu verk og það er mikilvægt að hafa í huga að listmeðferðarfræðingurinn hefur einnig umsjón með myndum af verkunum í virkri meðferð. 

Our 
Story

Saga listmeðferðar

Í aldanna rás hefur myndsköpun gegnt margskonar hlutverkum og eitt þeirra verið þáttur í fyrirbyggjandi heilsuvernd og geðhjálp. Sögulega hefur myndsköpun tengst þróun geðlæknisvísinda og sálarfræði á Vesturlöndum. Á seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar tuttugustu átti sér stað mikil þróun á sviðum vísinda, lista og menningar sem hafði áhrif á þróun listmeðferðar sem fræði- og starfsgreinar. Má nefna sem dæmi mannúðlegri meðferð á geðsjúklingum. Ýmsir evrópskir geðlæknar veltu því fyrir sér hvernig hægt væri að styðjast við myndverk sjúklinga sinna til sjúkdómsgreiningar og höfðu trú á að sköpunarferlið gæti jafnvel hjálpað sjúklingum til heilsu. Gefnar voru út bækur og greinar eftir evrópska lækna um myndverk sjúklinga. Á 19. öld skapaðist hefð fyrir því í Evrópu að listamenn væru fengnir til að starfa með sjúklingum á geðsjúkrahúsum. Í seinni heimstyrjöldinni fóru listamenn, geðlæknar og sálfræðingar að átta sig á að myndræn tjáning reyndist oft vera eina leið hermanna og annarra fórnarlamba stríðsins, til að tjá skelfilega reynslu sína. Sú samvinna sem þróaðist milli þessara fagaðila lagði grunninn að því fagi sem listmeðferð er orðin í dag.

 

Fram eftir 20. öldinni er hægt að sjá hvernig starf listamanna fór að tengjast inn í ýmsar stofnanir til aðstoðar fólki sem átti við geðræn vandamál að stríða þar sem geðlæknar og sálfræðingar voru að leita nýrra leiða í meðferð sinni á sjúklingum. Þetta krafðist þess að listamenn þurftu að afla sér þekkingar innan sálarfræði og geðlæknisfræða. Kenningar Sigmund Freud og Carl G. Jung höfðu mikil áhrif á fræðin í byrjun en síðar komu til þroskaþróunarkenningar eins og kenningar Eric Ericson, D.W.Winnicott, John Bowlby, Melanine Klein og fleiri. Fræðimenn eins og Rodha Kellogg og Victor Lowenfeld rannsökuðu hvernig þroskaþróun birtist í barnateikningum. Upp úr 1945 fóru svo að birtast skrif um kenningar sem byggðust á sérstöðu listmeðferðar sem meðferðarúrræðis. Má þar nefna nöfnin Adrian Hill, Irene Champernowne, Margaret Naumburg, Edith Kramer, Myra Levic, Rudolf Arnheim, og Arthur Robbins.

 

Nú í lok þessarar aldar hafa nýlegar rannsóknir á starfssemi heilans veitt enn betri þekkingu og skilning á minninu, hvernig það geymir upplýsingar í myndrænu formi og einnig á svokölluðu tilfinningaminni sem rökhugsun nær ekki yfir. Einnig hefur orðið til betri skilningur á áhrifum áfalla á minnið. Myndsköpun hefur oft hjálpað til að nálgast tilfinningar tengdar áföllum sem geymast í minninu og hafa áfram áhrif á líðan og hegðun einstaklingsins. Í þessu samhengi skal bent á að listmeðferðarfræðingar eru víða erlendis fengnir til að vinna við áfallahjálp t.d. á stríðshrjáðum svæðum eða þar sem hafa orðið náttúruhamfarir.

bottom of page