Músikmeðferð
Um
Músíkmeðferð byggir á vísindum sem tengjast ýmsum vísindasviðum náið, einkum læknisfræði, félagsvísindum, sálfræði, tónfræði og kennslufræði.
Í músíkmeðferð er skipulögð notkun tóna, hljóða og hreyfinga beitt til að auka vellíðan eða endurnýja, viðhalda og þróa andlega og líkamlega heilsu og/eða getu. Sérstök tón- og hljóðáreiti, eða eiginleikar og eðlisþættir tóna og hljóða, og tengsl sem myndast í tónlistarreynslunni eru notuð af sérfræðingi í þeim tilgangi að ná settum markmiðum í meðferð, kennslu og endurhæfingu fólks sem á við líkamleg, andleg og félagsleg vandamál eða fötlun að stríða.
Ekki er krafist tónlistarkunnáttu. Músíkmeðferð snýst um að tengjast, tjá sig og eiga samskipti í gegnum tónlist. Tónlist er ekki markmið í tónlistarmeðferð heldur leið að markmiði.
Dæmi um markmið:
-
Að efla líkamlegan, vitsmunalegan, skynrænan, sálrænan og félagslegan þroska.
-
Efling sjálfsvitundar.
-
Þróa hæfni til að tjá tilfinningar og þarfir.
-
Virkja lífskraft og sköpunarmátt.
-
Efling sjálfstrausts og sjálfsvirðingar.
-
Bæta sjálfsstjórn.
-
Bæta félagsfærni og getu til að mynda tengsl.
-
Bæta hæfni til slökunar.
-
Auka lífsgæði.
-
Efling félagslegrar þátttöku.
Músíkmeðferðarfræðingar starfa með einstaklingum á öllum aldri sem og aðstandendum þeirra og/eða umönnunaraðilum. Starfsvettvangurinn er fjölbreyttur. Hérlendis hafa músíkmeðferðarfræðingar starfað á ýmsum deildum Landspítala - háskólasjúkrahúss, í skólum, á öldrunar- og hjúkrunarheimilum og á eigin stofum.